Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 119/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 119/2022

Fimmtudaginn 7. júlí 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 22. febrúar 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 10. janúar 2022, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði greiðslur atvinnuleysisbóta frá Vinnumálastofnun í mars, apríl og maí 2020 samhliða minnkuðu starfshlutfalli hjá B. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 10. janúar 2022, var kæranda tilkynnt að henni bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir apríl 2020, að fjárhæð 85.687 kr., á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. febrúar 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. febrúar 2022, var óskað eftir afriti af hinni kærðu ákvörðun. Hin kærða ákvörðun barst 11. mars 2022 og með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var óskað eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð þann 13. apríl 2022. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 2. júní 2022, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. júní 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hafi verið búin að óska eftir útskýringu á innheimtu á ofgreiddum bótum, 85.687 kr. frá árinu 2020. Kærandi hafi ekki fengið svör og síðan séð að krafan væri komin í innheimtu 27. janúar 2022, án þess að fá útskýringu og tækifæri á greiðsludreifingu. Kærandi hafi haft samband í síma 17. febrúar 2022 en ekki hafi verið hægt að útskýra þetta í símtali nema að það væri eitthvað skrítið sem þyrfti að skoða. Kærandi hafi óskað eftir að þetta yrði skoðað því hún teldi þessa skuld ekki rétta miðað við þær upplýsingar sem hún hafi sent frá sér varðandi laun 2020 sem viðmið til að reikna út 75% af launum. Kærandi hafi fengið greitt 75% af launum í tvo mánuði vegna Covid-19. Kærandi hafi ekki átt von á að fá bakreikning tveimur árum síðar. Kærandi hljóti að geta treyst því að Vinnumálastofnun reikni þetta rétt og henni finnist það á ábyrgð stofnunarinnar. Það sé ekki boðlegt að senda bakreikning tveimur árum seinna vegna mistaka hjá Vinnumálastofnun. Kærandi velti fyrir sér mismuninum á því sem hún hafi fengið greitt miðað við sömu forsendur, 239.053 kr. fyrir 1. til 30. apríl 2020 og síðan 153.389 kr. fyrir 1. til 31. maí 2020. Kærandi hafi óskað eftir útskýringu og ekki fengið. Ef Vinnumálastofnun haldi því fram að kærandi skuldi þessa upphæð þurfi stofnunin að bera ábyrgð á því. Vinnumálastofnun hafi fengið öll gögn frá kæranda og vinnuveitanda árið 2020. Það sé á ábyrgð stofnunarinnar að gera þetta rétt og ekki í boði að rukka kæranda tveimur árum seinna. Kærandi fari fram á að þessi krafa verði felld niður vegna þess að þessi upphæð sem hún hafi fengið greidda sé rétt. Eins og kærandi skilji þennan mismun á milli mánaða þá hafi hún fengið of há laun í apríl 2020 en borgað til baka það sem hafi verið dregið af henni í maí 2020. Kærandi telji því að hún sé búin að borga þessa upphæð sem sé verið að rukka hana um tveimur árum síðar. Kærandi voni að tekið verði tillit til þess og þetta leiðrétt.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi þann 31. mars 2020 sótt um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í rekstri vinnuveitanda í samræmi við bráðabirgðaákvæði í lögum um atvinnuleysistryggingar. Bráðabirgðaákvæðið feli í sér að laun sem greidd séu samhliða minnkuðu starfshlutfalli komi til skerðingar á atvinnuleysisbótum samkvæmt sérgreindum reglum og greiðslur frá Vinnumálastofnun nemi tekjutengdum atvinnuleysisbótum í réttu hlutfalli við hið skerta starfshlutfall. Almennt gangi ákvæðið undir nafninu hlutabótaleið í daglegri umfjöllun um úrræðið.

Kærandi hafi þegið 75% hlutabætur á móti hinu skerta starfshlutfalli í mars. Samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta hafi kærandi fengið launagreiðslur frá fyrirtækinu B. Atvinnurekandi hafi staðfest upplýsingar varðandi minnkað starfshlutfall í gegnum mínar síður og skráð áætlaðar tekjur fyrir marsmánuð. Kærandi hafi verið skráð í 25% starf í mars. Þann 30. apríl 2020 hafi atvinnurekandi breytt skráningu á tekjuáætlun og starfshlutfalli kæranda á mínum síðum. Breyting hafi verið gerð á starfshlutfalli kæranda í apríl 2020 og laun hennar verið áætluð 143.377 kr. í mánuðinum. Breytingar þessar hafi verið gerðar svo seint í mánuðinum að Vinnumálastofnun hafði þegar tekið út greiðsluskrá og atvinnuleysisbætur verið greiddar út á grundvelli fyrri upplýsinga um tekjur og starfshlutfall kæranda.

Munur á fyrirliggjandi upplýsingum og síðbúnum breytingum á áætluðum tekjum hafi myndað skuld hjá stofnuninni, samtals að fjárhæð 85.687 kr. Leiðréttingar á greiðslum til kæranda hafi verið gerðar 3. júní 2020. Sama dag hafi kæranda verið send tilkynning þar sem upplýst hafi verið um ofgreiðslu.

Kæranda hafi verið sent innheimtubréf þann 10. janúar [2022] vegna aprílmánaðar 2020. Skorað hafi verið á kæranda að greiða skuld sína innan 30 daga. Í bréfinu hafi verið tekið fram að ef skuld væri ekki að fullu greidd innan 30 daga yrði málið sent Innheimtustöðinni á Blönduósi til frekari innheimtu. Daginn eftir hafi kærandi óskað eftir skýringum á ofgreiðslu. Erindi kæranda hafi verið svarað þann 25. janúar [2022] þar sem tilurð skuldar hafi verið nánar útlistuð. Þar sem skuld hafði ekki verið greidd hafi mál kæranda verið sent Innheimtustöðinni á Blönduósi til frekari innheimtu 11. febrúar 2022. Kærandi hafi haft samband við stofnunina og óskað eftir frekari skýringum 17. febrúar. Fyrirspurn kæranda hafi verið svarað samdægurs.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Með lögum nr. 23/2020, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðarsjóð launa, hafi verið gerðar tímabundnar breytingar til að mæta aðstæðum á vinnumarkaði. Tilgangur með breytingum hafi verið að hvetja fyrirtæki til að halda ráðningarsambandi við starfsfólk sitt þar til aðstæður á vinnumarkaði myndu skýrast. Fyrirtækjum í tímabundnum rekstrarvanda hafi verið gefinn kostur á að lækka starfshlutfall starfsmanna sinna tímabundið fremur en að grípa til uppsagna. Með úrræðinu hafi verið leitast við að draga úr auknu atvinnuleysi vegna tímabundinna þrenginga á vinnumarkaði og koma til móts við aðstæður launamanna sem hafi þurft að taka á sig kjaraskerðingu í formi minnkaðs starfshlutfalls.

Í 2. og 3. mgr. bráðabirgðaákvæðis XIII þágildandi laga um atvinnuleysistryggingar hafi verið fjallað um minnkað starfshlutfall. Þar komi fram:

„Greiðslur atvinnuleysisbóta skv. 1. mgr. skulu nema hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta í réttu hlutfalli við hið skerta starfshlutfall. Laun frá vinnuveitanda og greiðslur atvinnuleysisbóta samanlagt geta þó aldrei numið hærri fjárhæð en 700.000 kr. á mánuði og skulu ekki nema hærri fjárhæð en 90% af meðaltali heildarlauna launamanns. Til að finna út meðaltal heildarlauna skal miða við þriggja mánaða tímabil áður en launamaður missti starf sitt að hluta. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990.

Samtala launa frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall og atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæði þessu skal ekki sæta skerðingu skv. 2. málsl. 2. mgr. ef meðaltal heildarlauna launamanns er undir 400.000 kr. á mánuði miðað við fullt starf. Ef meðaltal heildarlauna launamanns er yfir 400.000 kr. á mánuði miðað við fullt starf má skerðing skv. 2. málsl. 2. mgr. aldrei verða til þess að samtala launa frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall og atvinnuleysisbóta samkvæmt þessu ákvæði nemi samanlagt lægri fjárhæð en 400.000 kr. á mánuði miðað við fullt starf.“

Meðaltekjur kæranda á þriggja mánaða tímabilinu áður en hún hafi misst starf sitt að hluta hafi numið 428.567 kr. Samkvæmt tilvitnuðu bráðabirgðaákvæði hafi laun frá vinnuveitanda og greiðslur atvinnuleysisbóta samanlagt ekki getað numið hærri fjárhæð en 90% af meðaltali heildarlauna launamanns, eða í tilfelli kæranda 400.000 kr., sbr. 3. mgr. ákvæðisins.

Skuld í máli kæranda sé tilkomin vegna þess að greiðslur hlutabóta í apríl 2020 hafi ekki tekið mið af tekjum og starfshlutfalli kæranda. Atvinnurekandi kæranda hafi gert breytingar á hlutastarfi og tekjuskráningu en þær breytingar hafi verið gerðar svo nálægt mánaðamótum að greiðsluskrá hafði þegar verið send til greiðslu. Sökum villu í kerfi stofnunarinnar hafi kæranda verið greiddar fullar hlutabætur upp að 400.000 kr. í apríl 2020.

Kærandi hafi verið í 25% starfshlutfalli í apríl 2020. Hámark tekjutengdra atvinnuleysisbóta hafi á þessum tíma verið 456.404 kr. og 75% af þeirri upphæð sé 342.303 kr. Kærandi hafi því að hámarki átt rétt á 342.303 kr. í hlutabætur vegna skerðingar á starfshlutfalli sínu í apríl. Þá eigi eftir að taka mið af tekjum kæranda á tímabilinu.

Áætlaðar tekjur kæranda í apríl 2020 hafi verið 143.377 kr. Samtals nemi 75% hlutabætur og laun kæranda því 485.680 (342.303 + 143.377). Þar sem laun og greiðslur hlutabóta hafi samanlagt ekki getað numið hærri fjárhæð en 400.000 kr. hafi borið að skerða fjárhæð hlutabóta sem hafi verið umfram hámarkið, eða um 85.680 kr. (485.680 – 400.000). Skuld kæranda nemi sjö krónum hærra en ofangreindur útreikningur, eða 85.687 kr. Misræmi felist í leiðréttingum sem hafi verið gerðar á persónuafslætti og greiðslum í lífeyrissjóð.

Krafa Vinnumálastofnunar á endurgreiðslu kæranda á ofgreiddum atvinnuleysisbótum sé byggð á 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en ákvæðið hljóði svo:

„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“

Samkvæmt framangreindu ákvæði sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og innheimta þær atvinnuleysisbætur sem ofgreiddar hafi verið. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum þeim tilvikum þegar atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslunnar hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð. Vinnumálastofnun telji því ekki efni til að fella niður kröfu stofnunarinnar um endurgreiðslu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum. Kæranda hafi ekki verið gert að greiða álag á skuld, enda sé skuldamyndun tilkomin vegna atvika sem kæranda verði ekki kennt um.

Það sé niðurstaða Vinnumálastofnunar að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að upphæð 85.687 kr.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 10. janúar 2022, um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir apríl 2020, að fjárhæð 85.687 kr., vegna tekna sem kærandi aflaði þann mánuð en hún þáði atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli.

Í 1. mgr. XIII. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, sem var í gildi til 1. júní 2020, kemur fram að þegar atvinnuleysisbætur séu greiddar samhliða minnkuðu starfshlutfalli samkvæmt 17. gr. vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda skuli föst laun frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall ekki koma til skerðingar á fjárhæð atvinnuleysisbóta samkvæmt 36. gr., enda hafi fyrra starfshlutfall lækkað um 20 prósentustig hið minnsta og launamaður haldið að lágmarki 25% starfshlutfalli. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins: 

„Greiðslur atvinnuleysisbóta skv. 1. mgr. skulu nema hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta í réttu hlutfalli við hið skerta starfshlutfall. Laun frá vinnuveitanda og greiðslur atvinnuleysisbóta samanlagt geta þó aldrei numið hærri fjárhæð en 700.000 kr. á mánuði og skulu ekki nema hærri fjárhæð en 90% af meðaltali heildarlauna launamanns. Til að finna út meðaltal heildarlauna skal miða við þriggja mánaða tímabil áður en launamaður missti starf sitt að hluta. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald.“

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greidd laun frá B samhliða minnkuðu starfshlutfalli í mars, apríl og maí 2020. Þann 30. apríl 2020 gerði atvinnurekandi kæranda breytingar á tekjuáætlun og starfshlutfalli kæranda. Breytingarnar voru gerðar það nálægt mánaðamótum að Vinnumálastofnun greiddi kæranda atvinnuleysisbætur á grundvelli fyrri upplýsinga um tekjur og starfshlutfall kæranda. Kærandi fékk því greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hún átti rétt á þann mánuð. Skuld kæranda er þannig tilkomin vegna þess að greiðslur hlutabóta í apríl 2020 tóku ekki mið af tekjum og starfshlutfalli kæranda. Samkvæmt fyrirliggjandi samskiptasögu var kæranda tilkynnt um fjárhæð skuldar þann 3. júní 2020.

Í 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum, beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laganna er heimilt að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysisbótum á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum sama einstaklings en þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur 25% af síðarnefndu atvinnuleysisbótum í hverjum mánuði. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.

Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á. Þar sem tekjuáætlun kæranda var ekki í samræmi við rauntekjur hennar fékk hún greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hún átti rétt á í aprílmánuði 2020. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Í máli þessu hefur ekkert álag verið lagt á skuld kæranda og því er ekki ágreiningur um það atriði. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

Úrskurðarnefndin telur ástæðu til að átelja þann mikla drátt sem varð hjá Vinnumálastofnun á því að skila greinargerð og gögnum til nefndarinnar. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal nefndin kveða upp úrskurði svo fljótt sem kostur er og að jafnaði innan þriggja mánaða eftir að henni berst mál, nema sérstakar ástæður hamli. Forsenda þess að úrskurðarnefndin geti fylgt þeirri reglu er að fullnægjandi gögn liggi fyrir tímanlega en ljóst er að svo var ekki í máli þessu. Úrskurðarnefndin brýnir fyrir Vinnumálastofnun að virða framvegis þau tímamörk sem sett eru vegna kærumála hjá nefndinni.

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 10. janúar 2022, í máli A, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum